Slide background
SAGAN

Rætur Merkismanna standa á gömlum merg. Það var síðla árs 1989 að tveir ungir Siglfirðingar og frændur Gunnar Trausti og Birgir Ingimarsson keyptu fyrirtækið Skilti sf. sem að stofni til var 10 ára gamalt og hafði hafið göngu sína í Þorlákshöfn undir nafninu Flosprent. Skilti sf. var aðeins tveggja ára þegar það sameinaðist Teiknistofu Birgis sf. og Tækniprenti hf. með Lárusi Gíslasyni innanborðs og hinn 1. ágúst 1991 urðu til Merkismenn ehf. hinir fyrri sem voru í 6 ár staðsettir í Skeifunni 3c við góðan orðstý. Árið 1997 var enn á ný hugað að stækkun og fyrirtækin Merkismenn ehf., Neon-þjónustan hf og Eureka hf. voru sameinuð í Nota bene hf. En ekki er allt gull sem glóir og þeir Birgir og Gunnar yfirgáfu Nota bene eftir skamma viðveru og héldu á vit nýrra ævintýra og Gunnar Trausti stofnaði G&T Merkismenn árið 2000 og Birgir hafði stofnaði auglýsingastofuna Taktík ehf skömmu áður. NB var innsiglað Siglfirðingalaust 2002.

 

Reynslumiklir

Eins og sjá má hér á undan er gífurleg reynsla að baki þessum ferli í skiltagerð hjá Gunnari Trausta og ekki skemmdi fyrir að til starfa hjá G&T Merkismönnum í mars 2002 réðst kvikmynda- og skiltagerðamaðurinn Kristberg Óskarsson frá Mosgerði sem átti að baki 15 ár í skiltagerðarbransanum hjá Útliti, Neon-þjónustunni og Nota bene. Brátt bættust í hópinn Þórhallur Árnason úr Breiðholti, sem starfað hafði í Nota bene og hinn þýskættaði Eiríkur Sv. Björnsson sem starfað hafði hjá Undur og Stórmerki, Fjölprenti, og Merkingu. Eiríkur fór í nám til USA árið 2008 og hefur ekki sést síðan. Og enn fjölgaði: Íraninn Nader kom frá Rúmerníu og fánaprentarinn Símon Friðriksson kom frá Útifánum og Silkiprenti. Þá kom sterkur inn árið 2006 Siglfirðingurinn Guðmundur Gauti Sveinsson sem hefur hljóðin fögur eins og afi hans; og Katrín Drífa Sigurðardóttir Reykjavíkurmær. Varð mjög kært er á milli þessa unga pars sem hélt gegnum Héðinsfjarðargöngin til Siglufjarðar og settist þar að. Enn bættist við Sverrir Einarsson, Árbæingur og miðjumaður.
Árið 2010 gekk til liðs við Merkismenn Haukur Ingi ljósmyndari af Reykjanesi. Við bankahrunið var skorið niður og nú árið 2014 eru hérna starfandi fjórar vinnandi manneskjur. Kristberg Óskarsson og Gunnar Trausti, Haukur Ingi Hauksson, Hafsteinn Guðmundsson og Nader.

Stefnan

Merkismenn leggja sig fram um að þjónusta viðskiptavininn. Það má segja að mottóið sé: Orð skulu standa!
Merkismenn hafa ávallt lagt áherslu á að mennta vel sitt starfsfólk og fylgjast vel með
tækninýjungum.

Merkismenn bjóða þig velkominn í viðskipti!